Fréttir

Aðalstjórn | 27. desember 2004

Íþróttamaður Keflavíkur 2004

Íþróttamaður Keflavíkur 2004 er Birna Valgarðsdóttir


Birna Valgarðsdóttir er fyrirliði körfuboltaliðs kvenna í Keflavík. Birna er fædd á Sauðárkróki þann 19. janúar árið 1976 og er því 28 ára. Hún lék fyrst með Keflavík 1996 og hefur leikið hér í átta ár. Birna hefur átt mikilli velgengni að fagna með Keflavík, en hún hefur orðið fjórum sinnum Íslandsmeistari og fimm sinnum Bikarmeistari frá því hún kom til félagsins. Á þessum tíma hefur Birna leikið tæplega 250 leiki og skorað um 3 þúsund stig.

 

Á líðandi ári hefur Birna leikið frábærlega og betur en nokkru sinni fyrr. Hún var í lykilhlutverki kvennaliðsins í vor sem varð Íslandsmeistari með meiri yfirburðum en áður hafa þekkst og vann þar að auki alla aðra titla sem í boði voru.

 

Í sumar náði Birna þeim glæsilega árangri að verða aðeins þriðja konan á landinu sem leikur 50 landsleiki. Hún hefur nú leikið 57 slíka og mun jafna met Önnu Maríu Sveinsdóttur nú milli jóla og nýjárs, en það eru 60 leikir. Sem stendur er Birna á Englandi í keppnisferðalagi með landsliðinu. Birna er einn af burðarásum landsliðsins og var hún til dæmis stigahæst í sumar þegar liðið náði sigri á Promotion Cup, skoraði um 16 stig að meðaltali í leik.

 

Það sem af er leiktíðinni með Keflavík í vetur hefur Birna leikið einstaklega vel í frábærri liðsheild, meðal annars skorað yfir 17 stig á leik. Liðið er enn taplaust og hefur haft mikla yfirburði til þessa, er langefst í fyrstu deildinni, varð Meistari meistaranna í haust og síðan Hópbílameistari fyrir skömmu.

 

Birna hefur ávallt lagt sig fram í íþrótt sinni, hún æfir mikið og sýnir mikinn metnað. Hún er ávallt í sérlega góðu formi og leikur jafn vel í vörn og sókn Hún getur skorað grimmt, bæði með langskotum og gegnumbrotum, en á sama tíma getur hún tekið besta mann andstæðinganna úr umferð. Birnu hefur stöðugt farið fram á undanförnum árum og hefur aldrei leikið betur eða náð betri árangri en einmitt árið 2004.