Fréttir

Grasrótarverðlaun KSÍ 2021
Aðalstjórn | 24. febrúar 2022

Grasrótarverðlaun KSÍ 2021

Keflavík og Njarðvík hafa unnið saman að verkefni sem kallast Íþróttir fyrir börn með mismunandi stuðningsþarfir þar sem áhersla hefur verið lögð á knattspyrnu og körfubolta.  Þetta er verkefni sem við höfum líka unnið að í samstarfi við Íþróttasamband fatlaðra og Nes hér á Suðurnesjum.  

Nú þegar hafa verið haldin 2 námskeið og er næsta námskeið að hefjast næstkomandi sunnudag.  Við erum mjög spennt að byrja aftur og taka á móti börnunum í takmarkalausu umhverfi.

Við höfum verið með frábæra þjálfara með okkur, Sólrúnu Sigvaldadóttur, Þröst Leó Jóhannsson og núna eru þeir Bjartur Logi Kristjánsson, Elvar Snær Guðjónsson og Sara Lind Reynisdóttir með okkur ásamt aðstoðarfólki ef þess þarf.

Nú í gær var okkur afhent Grasrótarverðlaun KSÍ fyrir árið 2021 sem við erum afar stolt af.  Það er ánægjulegt að þetta frábæra samstarfsverkefni okkar íþróttafélaganna í Reykjanesbæ hljóti eftirtekt og viðurkenningu.  Þess má geta að þetta eru önnur verðlaunin sem verkefnið hlýtur en síðasta haust hlaut verkefnið hvatningarverðlaun UMFÍ.  Það er afar ánægjulegt að sjá hvað er í boði fyrir börn með sérþarfir en Fimleikadeild Keflavíkur hefur boðið uppá fimleika fyrir börn með sérþarfir nú í tæp 3 ár, þannig að þetta er hrein viðbót við fimleikana og eykur á framboð hér hjá okkur.

K

Klara Bjartmarz afhendir fulltrúum Keflavíkur og Njarðvíkur þeim Hjördísi og Hámundi verðlaunin