Fréttir

KEFLAVÍK PLOKKAR
Aðalstjórn | 25. apríl 2018

KEFLAVÍK PLOKKAR

KEFLAVÍK PLOKKAR FIMMTA ÁRIÐ Í RÖÐ

Umhverfisdagur Keflavíkur var í gær.

Það er markmið Keflavíkur íþrótta- og ungmennafélags að vel sé gengið um keppnissvæði og nærumhverfi félagsins, þau séu ætíð snyrtileg og okkur til sóma. Við viljum því sýna gott fordæmi með því að efna til umhverfisdags innan félagsins þar sem stjórnarmönnum, iðkendum og öðrum félagsmönnum gefst kostur á að koma og leggja sitt af mörkum. Við viljum einnig beina þeim tilmælum til okkar stuðningsmanna og annarra velunnara sem koma og styðja við bakið á iðkendum um ganga ætíð vel um íþróttasvæðin „Hreint land fagurt land“.

Yfir eitthundrað manns komu og plokkuðu rusl í kringum íþróttahúsin, keppnisvöllinn og æfingasvæðin þar sem Keflavík keppir og stundar sínar æfingar.

Óvenjulega mikið rusl var þetta árið og skipti það tuga kílóa sem stjórnarfólk,  iðkendur, foreldrar og aðrir velunnar félagsins tíndu.

Dagurinn hófst kl. 17:30 er fólk mætti í íþróttahúsið við Sunnubraut og fékk ruslapoka og fór á sín svæðið til að týna rusl.

Eftir að tínslu lauk var boðið upp á hamborgara og gosdrykki þar sem formaður félagsins ásamt aðalstjórnarmönnum sáu svo um að grilla hátt í eitthundrað og fimmtíu hamborgara fyrir þá sem tóku þátt.

Glæsilegur dagur að baki.

Þátttakendum færum við alúðarþakkir fyrir þeirra framlag í þágu umhverfisins.

Fyrir hönd aðalstjórnar færi ég öllum þeim styrktaraðilum sem lögðu okkur lið á þessum degi kæra þakkir.

Einar Haraldsson formaður.

Myndir frá deginum