Fréttir

Bréf frá ÍÞRÓTTA- OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Aðalstjórn | 16. mars 2020

Bréf frá ÍÞRÓTTA- OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS

Reykjavík, 15. mars 2020
 
Í samskiptum ÍSÍ við landlækni, sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur komið fram að vegna mikilla anna við að koma af stað starfi í leik- og grunnskólum landsins, í samræmi við þær reglur um nú gilda, hefur ekki náðst að ljúka undirbúningi fyrir þátttöku leik- og grunnskólabarna í íþróttastarfi. Því má gera ráð fyrir því að röskun verði á íþróttastarfi næstu daga þangað til íþróttafélög, skólasamfélagið og sveitarfélög hafa komið sér niður á lausnir til að halda úti starfi með þeim takmörkunum sem munu gilda næstu fjórar vikurnar.
Í samskiptum við ofangreinda aðila hefur komið fram að til að unnt sé að undirbúa þetta verkefni og útfæra þær takmarkanir sem nú eru í gildi með fullnægjandi hætti væri heppilegt að gera ekki ráð fyrir því að íþróttastarf fyrir þennan aldurshóp fari af stað fyrr en mánudaginn 23. mars nk. ÍSÍ mælist til að farið verði eftir þessum tilmælum.
 
Varðandi íþróttaiðkun fullorðinna, þá er litið svo á að hún sé heimil að uppfylltum skilyrðum sem koma fram í auglýsingu heilbrigðisráðherra um samkomubann, þ.e. að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar inn í sama rými, hvort sem um er að ræða innan- eða utandyra. Þá skal sjá til þess, eftir því sem unnt er, að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga, gera ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa búnað eða æfingasvæði daglega og tryggja aðgengi að hreinlætisaðstöðu til handþvotta og sótthreinsunar. Ljóst er að þessi skilyrði munu útiloka æfingar fjölmargra íþróttagreina.
Íþróttafélögin, hvert fyrir sig, þurfa að koma því á framfæri við sína iðkendur og félagsmenn hvað af íþróttastarfsemi þeirra þau telja að geti farið fram að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram hafa komið. Rétt er að ítreka að það á ekki að gefa neinn afslátt af þeim kröfum sem yfirvöld hafa sett fram til að sporna við útbreiðslu þessarar veiru.
 
Við lifum nú fordæmalausa tíma og það er mikilvægt að allir taki höndum saman um að gera þá eins bærilega og kostur er. Sóttvarnalæknir, landlæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa unnið mjög gott starf við að bregðast við þeirri vá sem að okkur sækir. Með samstöðu og því að allir fylki sér að baki þeim reglum sem þessi embætti hafa gefið út má því ætla að við eigum að geta komist í gegnum þennan tíma á eins farsælan hátt og mögulegt er.
ÍSÍ er í stöðugu sambandi við yfirvöld og mun deila út til íþróttahreyfingarinnar upplýsingum um leið og þær berast.
 
Með kveðju,
ÍÞRÓTTA- OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS
Lárus L. Blöndal Líney Rut Halldórsdóttir
forseti framkvæmdastjóri
 
 
AUGLÝSING
um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.
 
1. gr.
Akvörðun og markmið
Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að fenginni
tillögu sóttvarnarlæknis og í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra, að takmarka skólastarf
tímabundið eftir því sem hér greinir.
Markmið með takmörkun skólastarf er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19.
 
2.gr.
Gildissvið
Takmörkun á skólastarfi tekur gildi 16. mars 2020 kl. 00:01 og gildir til 12. apríl 2020 kl. 23:59. Með
ákvörðuninni er átt við að nemendur geti ekki mætt í skólabyggingar, nema annað séð tekið fram.
Yfirvöld endurmeta þörf á takmörkun skólastarfs eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að
aflétta því fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistímann.
Takmörkun á skólastarfi tekur til leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, hvort sem um er að
ræða opinbera eða einkarekna skóla. Þá tekur ákvörðunin jafnframt til annarra menntastofnana,
frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþróttastarfs.
 
3. gr.
Leikskólar
Leikskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi leikskólastarfi að þeim
skilyrðum uppfylltum að börn séu Í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er. Jafnframt skulu
gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.
 
4. gr.
Grunnskólar
Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í
skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu
stofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, s.s. í mötuneyti eða frímínútum. Jafnframt skulu gerðar
ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.
 
5. gr.
Framhaldsskólar og háskólar
Framhalds- og háskólum skal lokað. Fjarkennslu skal sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari
ákvörðun menntamálayfirvalda.
 
6. gr.
Undanþágur
Heilbrigðisráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari
gegn markmiðum opinberra sóttvamarráðstafana.
 
Heilbrigðisráðuneytinu, 13. mars 2020.
Svandís Svavarsdóttir

 

Nr. 217 13. mars 2020
 
AUGLÝSING
um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.
 
1. gr.
Ákvörðun og markmið.
Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, og í samráði við ríkisstjórnina að setja á tímabundna takmörkun á samkomum eftir því sem hér greinir.
Markmið takmörkunarinnar er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.
 
2. gr.
Gildissvið.
Takmörkun á samkomum tekur gildi 16. mars 2020 kl. 00.01 og gildir til 12. apríl 2020 kl. 23.59.
Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar.
Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.
 
3. gr.
Fjöldatakmörkun.
Í takmörkun á samkomum felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma þessarar auglýs-ingar. Með fjöldasamkomum er átt við þegar 100 einstaklingar eða fleiri koma saman, hvort sem er í opinberum rýmum eða í einkarýmum. Er þá m.a. vísað til:
a) Ráðstefna, málþinga, funda o.þ.h.
b) Skemmtana, s.s. tónleika, leiksýninga, bíósýninga, íþróttaviðburða og einkasamkvæma.
c) Kirkjuathafna hvers konar, s.s. vegna útfara, giftinga, ferminga og annarra trúarsamkoma.
d) Annarra sambærilegra viðburða með 100 einstaklingum eða fleiri.
Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 100 einstaklingar inni í sama rými, s.s. á veitingastöðum, mötuneytum, kaffihúsum, skemmtistöðum, verslunum, sundlaugum, líkamsræktarstöðvum og söfnum.
 
4. gr.
Nálægðartakmörkun.
Í takmörkuninni felst einnig að á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skuli eftir því sem unnt er, rými skipulögð með þeim hætti að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga. Þessi mörk eiga einnig við um almenningssamgöngur og aðra sambærilegra starfsemi.
 
6. gr.
Takmörkun gildissviðs.
Takmörkun þessi á samkomum tekur ekki til skólahalds en um það er fjallað í sérstakri auglýsingu.
Takmörkunin tekur ekki til alþjóðaflugvalla og -hafna. Það tekur jafnframt ekki til loftfara og skipa.
 
7. gr.
Undanþágur.
Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun á samkomum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins eða til verndar lífs eða heilsu manna eða dýra.
 
Heilbrigðisráðuneytinu, 13. mars 2020.
 
Svandís Svavarsdóttir.
 
Ásta Valdimarsdóttir.
__________
B-deild – Útgáfud.: 13. mars 2020