Fréttir

Tímamótaleikur hjá Guðjóni Árna
Knattspyrna | 7. september 2016

Tímamótaleikur hjá Guðjóni Árna

Það var tímamótaleikur hjá Guðjóni Árna Antoníussyni þegar Huginn og Keflavík mættust í Inkasso-deildinni á dögunum.  Guðjón var að sjálfsögðu á sínum stað í bakverðinum og lék þar með sinn 200. deildarleik fyrir Keflavík.  Hann er sjötti leikmaðurinn í sögu félagsins til að ná þeim áfanga.

Guðjón Árni lék sinn fyrsta deildarleik fyrir Keflavík þann 8. júlí árið 2002 en það var heimaleikur gegn Grindavík í efstu deild.  Þeim leik lauk með 2-2 jafntefli þar sem Hólmar Örn Rúnarsson og Kristján H. Jóhannsson skoruðu mörk Keflavíkur.  Eins og áður sagði eru deildarleikir Guðjóns nú orðnir 200 talsins en 170 þeirra eru í efstu deild en 30 í þeirri næstefstu.  Mörkin eru 11 í þessum leikjum.  Guðjón lék einnig 33 deildarleiki með FH á árunum 2012-2014 og ekki má gleyma að kappinn hóf ferilinn á heimaslóðum í Garðnum og lék þá 11 deildarleiki með Víði.  Deildarleikir Guðjóns Árna eru því orðnir 244.

Eins og áður sagði er Guðjón sjötti leikmaðurinn í sögu Keflavíkur til að leika 200 deildarleiki fyrir félagið.  Þar er efstur á blaði Sigurður Björgvinsson með 250 leiki, Óli Þór Magnússon kemur næstur með 245 leiki og síðan Guðmundur Steinarsson með 244.  Magnús Sverrir Þorsteinsson hefur leikið 242 leiki og er enn að og Gestur Gylfason lék á sínum tíma 207 deildarleiki fyrir félagið.

Við óskujm Gauja til hamingju með þennan skemmtilega áfanga.


Guðjón Árni í leik gegn HK í sumar.
(Myndir: Jón Örvar)