Knattspyrna

Knattspyrna | 30.09.2019
Tímamót hjá Keflvíkingum sem ganga upp úr 2.flokki.

Leikmönnum sem fæddir eru árið 2000 og voru að ljúka sínu síðasta ári í yngri flokka starfi knattspyrnudeildar Keflavíkur var boðið til sérstaks hófs í Blue-höllinni, miðvikudaginn 18. september. Þar var þeim þakkað fyrir sitt framlag til starfsins hingað til og bent á ýmsa möguleika til að leggja áfram sitt af mörkum til knattspyrnunnar á Suðurnesjum. Var þeim sem ekki munu ganga til samninga við meistaraflokk til dæmis bent á mögulegt framlag við dómgæslu, þjálfun, sjálfboðaliðastarf, samfélagsmiðla, getraunir, stuðningsmannaklúbba og þar fram eftir götunum.

Þessi störf og fleiri eru hverju félagi ómetanleg. Auk þess eigum við frábær nágrannafélög sem við eigum góð tengsl við ef menn vilja áfram láta reyna á metnaðarfulla knattspyrnuiðkun.

Flestir þessara stráka hafa æft og keppt saman á vegum félagsins í rúman áratug og upplifað ótrúlegan fjölda af viðburðum, æfingum og leikjum, þar sem þeir hafa kynnst hópastarfi, liðsvinnu, mótlæti og velgengni og þannig undirbúið sig vel fyrir það sem lífið býður upp á, í gegnum mikilvægt starf félagsins. Síðast en ekki síst býður svona ferill oftar en ekki upp á vináttu fyrir lífstíð og víða um heim halda slíkir hópar áfram að hittast og starfa saman löngu eftir að skipulagðri knattspyrnuiðkun lýkur.

Styrkleiki manna inni á vellinum er misjafn en þeir sem minna hefur borið á þar, eru hreint ekki síður mikilvægir félaginu en þeir sem skara fram úr. Aðeins einn leikmaður úr þessum árgangi, sem æft hefur hjá félaginu á undanförnum ári vantaði í hópinn þetta kvöld en eins og allir vita er Ísak Óli Ólafsson nú haldinn á vit ævintýranna í atvinnumennsku erlendis.

Á meðan pizzuveislu stóð voru strákarnir beðnir um að rifja upp eftirminnileg atvik af ferli sínum í yngri flokkunum og bar þar lítið á skorti. Sögur voru sagðar af glæstum sigrum, stórum töpum, dómarahneykslum, ferðalögum innanlands og utan og voru þær mis-prenthæfar, svo ekki sé meira sagt. Sögurnar áttu það þó allar sameiginlegt að undantekningarlaust færðust grallaraleg bros yfir varir viðstaddra. Enginn vafi er á að slík sögustund hefði auðveldlega getað staðið langt fram á nótt.

Ástæða hófsins er sú að forráðamenn Knattspyrnudeildarinnar eru stoltir af hópnum og þykir vænt um framlag þessara ungu manna. Einnig setja þeir traust sitt á að þeir gefi ekkert eftir í því að halda merki félagsins hátt á lofti í framtíðinni, innan vallar eða utan, með einum eða öðrum hætti og styðji það og styrki með ráðum og dáð. Það er einlæg von þeirra sem að knattspyrnudeildinni standa að þessi hópur muni ávallt horfa til baka á tíma sinn í starfi yngri flokka Keflavíkur með hlýju.

Á myndinni má sjá „útskriftarárgang“ ársins 2019 í 2.flokki karla, ásamt Sigurði Garðarssyni, formanni knattspyrnudeildarinnar, Eysteini Haukssyni, þjálfara meistaraflokks karla og Unnari Sigurðssyni, þjálfara 2.flokks karla.