Fréttir

Frábær sigur á Þrótti R.
Knattspyrna | 2. september 2017

Frábær sigur á Þrótti R.

Stelpurnar okkar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Þrótt R. í 17. umferð 1. deildar í Laugardalnum á föstudagskvöld.

Það var Þóra Kristín Klemenzdóttir sem gerði eina mark leiksins í upphafi seinni hálfleiks. Sveindís Jane tók þá langt innkast og Natasha Anasi flikkaði áfram á Þóru sem lagði boltann af yfirvegun neðst í markhornið, 0-1. Þess má geta að Natasha var að spila sinn fyrsta leik í byrjunarliði Keflavíkur eftir barnsburð. Á síðasta keppnistímabili spilaði hún með ÍBV og var m.a. valin í lið ársins í Pepsi-deildinni.

Leikurinn var opinn og stórskemmtilegur og hefðu mörkin svo sannarlega getað orðið fleiri. Þróttarar þjörmuðu vel að Keflavíkurstelpunum í lok leiks, en vörnin með Lauren trausta fyrir aftan sig í markinu stóð sína plikt.  Stelpurnar áttu mjög góðan leik og voru vel að sigrinum komnar. Þær áttu t.a.m. fleiri og hættulegri færi en Þróttarar, eins og sjá má á tölfræðiupplýsingum frá urslit.net hér að neðan.  Það var góð stemming í fljóðljósunum í Laugardalnum, trommusveitin mætti á leikinn og stóðu þeir sig frábærlega í að styðja stelpurnar, vel gert drengir.

Þegar ein umferð er eftir í 1. deildinni, er Selfoss nánast búið að tryggja sér sæti í Pepsi deild að ári og Þróttur og HK/Víkingur berjast um hitt sætið. Keflavík, sem er í 4. sæti, á þó tölfræðilega möguleika á að lauma sér í 3. sætið með hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum. Síðasti leikur Keflavíkur er gegn Víking Ó. laugardaginn 9. sept. á Nettóvellinum.

Leikskýrsla úr leiknum
Staðan í deildinni.
 


 


Markaskorarinn, Þóra Kristín Klemenzdóttir.



Erlendu leikmennirnir í Keflavíkurliðinu ánægðar að leik loknum.
Frá vinstri: Natasha Anasi, Sophie Groff, Mairead Fulton og Lauren Watson.


Frá vinstri: Sveindís, Kristrún, Íris, Natasha, Sophie, Mairead, Lauren og Katla.