Fréttir

Elías Már í landsliðshópnum
Knattspyrna | 14. janúar 2015

Elías Már í landsliðshópnum

Elías  Már Ómarsson er nú með íslenska landsliðinu í Orlando í Florida en liðið leikur þar tvo vináttulandsleiki við Kanada í vikunni.  Þetta er stór áfangi hjá Elíasi sem verður einmitt tvítugur um helgina.  Hann vakti mikla athygli með Keflavíkurliðinu síðasta sumar og var þá valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar.  Við óskum Elíasi Má til hamingju með valið og óskum honum og landsliðinu góðs gengis í leikjunum gegn Kanadamönnum sem verða 16. og 19. janúar.

Yngri leikmenn okkar hafa einnig verið á úrtaksæfingum með yngri landsliðunum sem æfðu í upphafi ársins.  Sindri Kristinn Ólafsson, Anton Freyr Hauksson og Fannar Orri Sævarsson voru með U-19 ára landsliðinu en þeir léku allir með því liði á síðasta ári.  Samúel Þór Traustason var með í úrtaksæfingum U-17 ára landsliðs karla og þeir Hreggviður Hermannsson, Ísak Óli Ólafsson og Sindir Snær Hleiðarsson tóku síðan þátt í æfingum U-16 ára liðsins.

Framundan eru svo fleiri úrtaksæfingar fyrir U-16 og U-17 ára landsliðin.  Þar eigum við okkar fulltrúa en Hilmar Andrew McShane og Stefan Alexander Ljubicic munu þá æfa með U-17 ára hópnum en Cezary Wiktorowicz og Eyþór Atli Aðalsteinsson með U-16 ára liðinu.