Knattspyrna

Knattspyrna | 13.03.2018
Bláa liðið 2018

Blue Car Rental ehf. og knattspyrnudeild Keflavíkur gerðu nýverið samning þess efnis að Blue Car Rental myndi halda áfram að styrkja og styðja við barna- og unglingastarf félagsins í gegnum „Bláa liðið“. Bláa liðið er verkefni sem hófst árið 2016 með það að markmiðið að styðja við afreksþjálfun ungra knattspyrnuiðkenda. Í ár verður afreksþjálfunin í formi aukaæfinga fyrir iðkendur í 3. og 4. flokki kvenna og karla hjá Keflavík. Hugmyndin er að þeim leikmönnum sem hafa sérstakan áhuga á að bæta hæfni sína eða vilja freista þess að auka árangur sinn í íþróttinni verði boðið upp á aðstöðu og æfingar utan venjulegs æfingatíma.

Hér er Magnús með Ingu Lind dóttur sinni að skrifa undir ásamt Svavari og Smára frá barna- og unglingaráði.

Jónas Guðni Sævarsson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Keflavíkur var að vonum ánægður með áframhaldandi stuðning Blue Car Rental. „Það að geta haldið úti afreksstarfi sem þessu eru ómetanlegt fyrir knattspyrnudeild Keflavíkur og er deildin gríðarlega ánægð með þann stuðning sem Blue Car Rental hefur veitt deildinni“.

 

Fyrir þá sem ekki vita er Blue Car Rental keflvískt fjölskyldufyrirtæki í eigu hjónanna Guðrúnar Sædal Björgvinsdóttur og Magnúsar Sverris Þorsteinssonar. Þess má geta að Magnús Sverrir, sem er auðvitað öllum Keflvíkingum kunnur eftir að hafa leikið um árabil fyrir félagið, var helsti hvatamaður að verkefninu í upphafi en við undirritun kvað Magnús Sverrir þetta vera gott tækifæri fyrir sig til að gefa til baka til félagsins sem gefið hefði honum margar af hans bestu minningum. „Ég vona svo sannarlega að þessar afreksæfingar hjálpi ungum og efnilegum leikmönnum félagsins að verða betri. Ekki væri nú verra ef þeir hjálpuðu meistaraflokkum félagsins að ná hæstu hæðum í framtíðinni enda hlýtur það að vera eitt af markmiðum barna- og unglingastarfs að það skili hæfileikaríkum leikmönnum upp í meistaraflokkana.“