Sund

Sund | 07.01.2018
Sundfólk ársins 2017, íþróttamaður Keflavíkur og Reykjanesbæjar

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson er íþróttamaður Reykjanesbæjar, íþróttamaður Keflavíkur, sundmaður Reykjanesbæjar og sundmaður Keflavíkur 2017. Davíð hefur verið á fullu í sundinu í 20 ár og er yngri sundmönnum ákaflega góð fyrirmynd, afar duglegur og góður sundmaður. Hann synti til 20 ára aldurs með okkur, en fór síðan í háskólanám á sundstyrk. Eftir að hann koma til baka frá USA þá hóf hann að synda aftur með okkur og verið afar mikil lyftistöng fyrir sundliðið og íslenska landsliðið.

Árið í ár ætlar hann að hafa síðasta árið í stífum æfingum. Davíð náði lágmörkum fyrir tvö landsliðsverkefni hjá SSÍ, Smáþjóðaleikana og Norðurlandamótið. Davíð varð Íslandsmeistari í fjórum greinum í fullorðinsflokki á árinu. Í þremur greinum á ÍM 50, þar af í tveimur boðsundsgreinum og í einni grein á ÍM 25. Á Smáþjóðaleikunum vann Davið brons í bæði 100 og 200m baksundi, jafnframt vann hann til þrennra silfurverðlauna í boðsundum, í 4 x100m skriðsundi, 4 x 100m fjórsundi og 4 x 200m skriðsundi. Tvö fyrrnefndu boðsundin voru Landsmet. Davíð náði eins og áður sagði lágmörkum fyrir Norðurlandamótið sem fram fór hér á Íslandi í desember og endaði hann árið og ferilinn með miklum glæsibrag þegar hann varð Norðurlandameistari á sínum besta tíma í 100m baksundi. Davíð hefur undanfarin ár verið einn af lykilmönnum sundliðs ÍRB og íslenska karlalandsliðsins í sundi.

Íris Ósk Hilmarsdóttir var valin sundkona Keflavíkur 2017.  Íris Ósk náði lágmörkum á Smáþjóðaleikana og keppti þar með landsliði SSÍ. Hún vann silfurverðlaun í 200m baksundi og brons í 100m baksundi á á ÍM 50. Íris Ósk er ein af fremstu baksundskonum landsins og stundar nú háskólanám á skólastyrk í sundi í McKendree Háskólanum í Illinois.