Fréttir

Níu Íslandsmeistaratitlar á ÍM25
Sund | 17. nóvember 2015

Níu Íslandsmeistaratitlar á ÍM25

Sundlið ÍRB átti góðu gengi að fagna á Íslandsmeistaramótinu í 25m laug sem fram fór að Ásvöllum í Hafnarfirði um helgina. Alls vann lið ÍRB  til níu íslandsmeistaratitla á mótinu.



Þröstur Bjarnason varð Íslandsmeistari í 1500m skriðsundi, 800m skriðsundi og 400m skriðsundi, Baldvin Sigmarsson varð Íslandsmeistari í 200m flugsundi og 400m fjórsundi, Sunneva Dögg Friðriksdóttir varð Íslandsmeistari í 200m og 400m skriðsundi og Eydís Ósk Kolbeinsdóttir varð Íslandsmeistari í 1500m skriðsundi.

Sunneva Dögg Friðriksdóttir náði lágmörkum fyrir EM  25 þegar hún sigraði í 400m skriðsundinu, og um leið bætti hún fimm ára gamalt Íslandmet stúlkna 15 – 17 ára sem Eygló Ósk Gústafsdóttir Ægi átti.
Kvennasveit ÍRB varð Íslandsmeistari í 4 x 200m skriðsundi, en sveitina skipuðu þær: Sunneva Dögg Friðriksdóttir, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir, Stefanía Sigurþórsdóttir og Karen Mist Arngeirsdóttir.

Kvennasveit ÍRB setti Íslandsmet í flokki 15- 17 ára í 4 x100m fjórsundi, þegar þær höfnuðu í öðru sæti á frábærum tíma, þar sem þær bættu gamla metið um heilar fjórar sekúndur. Sveitina skipuðu þær: Íris Ósk Hilmarsdóttir, Karen Mist Arngeirsdóttir, Gunnhildur Björg Baldursdóttir og Sunneva Dögg Friðriksdóttir.

Uppskeran helgarinnar var því níu Íslandsmeistaratitlar, sex sundmenn með lágmörk á NM og einn sundmaður með lágmark á EM, stúlknamet í boðsundi og stúlknamet hjá Sunnevu Dögg Friðriksdóttur í 400m skriðsundi.

Eftirtaldir sundmenn náðu lágmörkum fyrir NM í Bergen: Baldvin Sigmarsson, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir, Karen Mist Arngeirsdóttir, Stefanía Sigurþórsdóttir, Sunneva Dögg Friðriksdóttir og Þröstur Bjarnason.

Sunneva Dögg Friðriksdóttir náði jafnframt lágmörkum á EM, en valdi frekar að fara á NM.