Fréttir

Ungar og efnilegar semja við Keflavík
Knattspyrna | 17. október 2016

Ungar og efnilegar semja við Keflavík


Á myndinni eru frá vinstri: Jón Ben formaður, Katla María, Sveindís Jane,
Íris Una, Anita Lind og Benedikta formaður kvennaráðs.

Eftir frábært gengi hjá stelpunum okkar í sumar er stefnan bara sett upp á við, ætlunin er að spila í Pepsi- deildinni að ári og einn af þeim liðum til þess að tryggja það er að halda þeim öllum á heimahögum.  Um helgina var samið við þær tvíburasystur Kötlu og Írisi Þórðardætur ásamt því að framlengja við landsliðsstelpurnar Anitu Lind Daníelsdóttur og Sveindísi Jane Jónsdóttur.

Katla og Íris spiluðu báðar sinn fyrsta meistarflokksleik með Keflavík 2015 og var það á móti ÍA.  Katla hefur spilað 20 leiki í deild og bikar og hefur skorað 5 mörk en Íris hefur spilað 19 leiki í deild og bikar.

Anita hefur verið fastamaður í yngri landsliðum okkar og á að baki 13 leiki og 3 mörk með U-17 og 4 leiki með U-19, hún var í lokahópnum sem tók þátt í undakeppni EM í Finnlandi í september s.l.  Anita spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik með Keflavík 2014 og var það á móti Víking Ólafsvík. Hún á að baki  27 leiki í deild og bikar með Keflavík og skorað í þeim leikjum 7 mörk.

Sveindís Jane hefur einnig verið fastamaður í okkar yngri landsliðum, hún hefur leikið 7 leiki og skorað 5 mörk með U-17 og 1 leik með U-19 og er í U-17 hópnum sem er að fara til Írlands dagana 24. okt-1. nóv í undankeppni EM.  Sveindís lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Keflavík 2015 og var það á móti Haukum.  Hún á að baki 25 leiki í deild og bikar með Keflavík og hefur skorað í þeim 31 mark.


Jón formaður og Sveindís Jane.


Jón og Anita Lind.


Íris og Jón.



Katla og Jón.