Fréttir

Knattspyrna | 15. september 2010

Tap gegn Fram í Laugardalnum

Keflavík tapaði gegn Fram í 19. umferð Pepsi-deildarinnar á Laugardalsvellinum á mánudagskvöld.  Ekkert gengur hjá liðinu þessa dagana og það situr í 8. sæti deildarinnar með 24 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.

Halldór Hermann Jónsson kom Frömurum yfir þegar hann skoraði á 35. mínútu með góðu skoti.  Keflavík átti fína sókn á 42. mínútu sem endaði með því að Jón Guðni Fjóluson skoraði sjálfsmark og staðan í hálfleik var því 1-1.  Það var svo Almarr Ormarsson sem skoraði sigurmark Fram á 78. mínútu eftir vandræðaleg mistök í vörninni.  Lokastaða 2-1 fyrir Fram.

Margir stuðningsmenn Keflavíkur mættu í Laugardalinn og urðu fyrir miklum vonbrigðum með leik liðsins.  Spurningin er hvað er að gerast hjá liðinu eftir frábæra byrjun á þessu móti.

Þess má geta að ungu strákarnir, Arnór Ingvi Traustason og Bojan Stefán Ljubicic, komu inn á undir lok leiksins og stóðu sig vel. Arnór Ingvi, sem er fæddur 1993, var að spila sinn fyrsta leik og þeir eiga örugglega eftir að vera miklu fleiri enda góður leikmaður þar á ferð.

Næsti leikur okkar er gegn Val á Sparisjóðsvellinum fimmtudaginn 16. september kl. 17:15.

  • Leikurinn var 26. sigurleikur Fram gegn  Keflavík í efstu deild.  Keflavík hefur unnið 31 leik og 27 leikjum liðanna hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 123-115 fyrir Keflavík.
     
  • Arnór Ingvi Traustason lék sinn fyrsta leik fyrir Keflavík þegar hann kom inn á sem varamaður.  Arnór er 17 ára gamall.  Haukur Ingi var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu í sumar en hann hefur lítið getað leikið í sumar vegna meiðsla.
      
  • Keflavík hefur nú aðeins unnið einn af síðustu tíu leikjum liðsins í deildinni.  Liðið hefur gert þrjú jafntefli en tapað sex af þessum leikjum, gegn ÍBV, Breiðabliki, KR, Selfossi, Haukum og Fram.
                

Fótbolti.net
„Ég er bara mjög svekktur og sár. Mig langaði virkilega að vinna þennan leik og við vorum harðákveðnir í því að vinna hérna tvo leiki á þremur dögum og skjótast upp um þrjú sæti,“ sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Keflavíkur við Fótbolta.net eftir 2-1 tap liðsins gegn Fram í Pepsi deildinni í kvöld.

„Þetta var fjörugur og jafn leikur og við gerðum fleiri mistök en þeir, og þeir refsuðu okkur. Í fyrri hálfleik var ég ekkert sérstaklega sáttur með það hvernig við nálguðumst þá á miðsvæðinu en mér fannst við laga þetta í seinni hálfleik og við fórum fastar að þeim.“

Fréttablaðið / Vísir
Framliðið var betra liðið í leiknum og skapaði sér mun fleiri hættulegri færi en Keflavíkurliðið lá aftarlega og treysti á skyndisóknirnar.
Ómar 6, Guðjón 6, Brynjar Örn 3 (Arnór Ingvi -), Alen 5, Haraldur 5, Andri Steinn 5 (Bojan Stefán -),  Hólmar Örn 6, Magnús Sverrir 3, Hörður 3,  Guðmundur 4, Haukur Ingi 5 (Magnús Þórir 3).

Morgunblaðið / Mbl.is
Blautur völlurinn bauð upp á skot, sem gætu fleytt kerlingar í markið enda byrjaði leikurinn af krafti með nokkrum bylmingsskotum sem flest voru heimamanna en síðan varð meiri barningur. Framarar voru þó beittari og betri við að byggja upp sóknir á meðan flestar sóknir Keflavíkinga strönduðu á Jóni Guðna Fjólusyni og Kristjáni Haukssyni, varnarjöxlum Fram, enda of mikið gert af því að senda langt fram og treysta á sprett Hauks Inga Guðnasonar. Hann er fljótur en ekki svona fljótur.
M: Ómar, Guðjón, Haraldur, Magnús Sverrir, Hólmar Örn, Haukur Ingi.


Pepsi-deild karla, Laugardalsvöllur, 13. september 2010
Fram 2
(Halldór Hermann Jónsson 36., Almarr Ormarsson 77.)
Keflavík 1 (Sjálfsmark 44.) 

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Brynjar Örn Guðmundsson (Arnór Ingvi Traustason 83.), Alen Sutej, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Andri Steinn Birgisson (Bojan Stefán Ljubicic 83.), Hólmar Örn Rúnarsson, Hörður Sveinsson, Guðmundur Steinarsson, Haukur Ingi Guðnason (Magnús Þórir Matthíasson 70.).
Varamenn: Lasse Jörgensen, Magnús Þór Magnússon, Einar Orri Einarsson, Viktor Smári Hafsteinsson.
Gul spjöld: Guðmundur Steinarsson (59.), Magnús Þórir Matthíasson (89.).
Rautt spjald: Magnús Þórir Matthíasson (90.).

Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr..
Aðstoðardómarar: Sverrir Gunnar Pálmason og Eðvarð Eðvarðsson.
Eftirlitsdómari: Guðmundur Sigurðsson.
Áhorfendur: 707.


Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir.



Arnór Ingvi lék sinn fyrsta leik og stóð sig vel.


Haraldur heilsar Þóroddi og félögum.