Fréttir

Sigur í fyrsta leik hjá stelpunum
Knattspyrna | 18. maí 2016

Sigur í fyrsta leik hjá stelpunum

Keflavíkurstúlkur sóttu Álftanes heim í fyrsta leik Íslandsmótsins í ár.  Leikið var á gervigrasvellinum á Álftanesi við flottar aðstæður.  Heimakonur byrjuðu betur og fengu vítaspyrnu strax á 5. mínútu sem Sunna Sigurveig Thorarensen skoraði úr, 1-0.  Eftir markið stjórnaði Keflavík leiknum og sótti án afláts.  Það var svo á 36 mínútu sem brotið var á Sveindísi Jane innan vítateigs og fór Sveindís sjálf á punktinn og skoraði, 1-1 sem voru hálfleikstölur.

Seinni hálfleikur var ekki ólíkur þeim fyrri, Keflavík með yfirhöndina en áttu í erfiðleikum með að finna netmöskvana.  Keflavík átti fjölmörg færi en markvörður heimastúlkna varði oft á tíðum mjög vel auk þess sem marksúlurnar nötruðu í þrígang.  Á 74 mínútu náði Kristrún Ýr Holm forystunni með glæsilegu skallamarki eftir hornspyrnu frá Unu Margréti Einarsdóttur.  Heimastúlkur bættu aðeins í sóknina í lokin án árangurs og kærkominn sigur í fyrsta leik í höfn.

Í liði Keflavíkur var nýr bandarískur leikmaður á milli stangann, Sarah Story.  Það reyndi lítið á hana í leiknum en hún lofar vissulega góðu.

Leikskýrslan frá leiknum

Næsti leikur hjá stelpunum er í Bikarkeppninni og er þá um endurtekið efni að ræða. Leikur á Álftanesi á sunnudaginn kl. 14:00, Álftanes - Keflavík.

Á urslit.net var tekin tölfræði úr leiknum og er hún nokkuð afgerandi eins og sjá má á myndinni hér að neðan.