Fréttir

Keflavík - Haukar á fimmtudag kl. 18:00
Knattspyrna | 23. ágúst 2016

Keflavík - Haukar á fimmtudag kl. 18:00

Á fimmtudaginn er komið að næsta leik í Inkasso-deildinni en þá fáum við Hauka í heimsókn á Nettó-völlinn.  Við minnum á að leikurinn hefst í fyrra lagi eða kl. 18:00.  Fyrir leikinn er Keflavík í 3.-4. sæti deildarinnar með 26 stig en Haukar eru í 6. sæti með 23 stig.  Dómari leiksins verður Sigurður Óli Þórleifsson, aðstoðardómarar eru þeir Andri Vigfússon og Oddur Helgi Guðmundsson og eftirlitsmaður KSÍ er Jón Sigurjónsson.

Liðin mættust fyrr í sumar og þá á heimavelli Hauka á Ásvöllum.  Haukar unnu þann leik 4-3 þar sem Hörður Sveinsson, Jónas Guðni Sævarsson og Páll Olgeir Þorsteinsson skoruðu fyrir okkar lið en Alexander Helgason gerði tvö mörk Hauka og Aron Jóhannsson og Elton Renato Livramento Barros eitt hvor.

Fyrir þetta tímabil höfðu Keflavík og Haukar áður leikið sex leiki í B-deildinni árin 1981, 1991 og 2003.  Keflavík vann alla leikina og markatalan er 24-2 í þessum leikjum.  Liðin hafa einnig leikið fjóra leiki í efstu deild 1979 og 2010 og þar hefur hvort lið unnið einn leik og tveimur lokið með jafntefli.  Markatalan þar er 5-4 fyrir Keflavík.  Þessi lið hafa svo mæst þrisvar sinnum í bikarkeppninni, árin 1990, 1992 og 2011.  Þar hefur Keflavík alltaf farið með sigur af hólmi og markatalan er 10-1, okkur í vil.


Frá fyrri leik liðanna sem fór fram á Ásvöllum.
(Mynd: Jón Örvar)