Fréttir

KA - Keflavík á laugardag kl. 14:00
Knattspyrna | 3. júní 2016

KA - Keflavík á laugardag kl. 14:00

Eftir tvo heimaleiki í röð er komið að útileik hjá strákunum en það er leikur gegn KA í Inkasso-deildinni.  Leikurinn verður á Akureyrarvelli á laugardaginn kl. 14:00.  Þessum liðum var báðum spáð góðu gengi í deildinni í sumar en fyrir leikinn er Keflavík með 8 stig en KA-menn með níu eftir fjóra leiki.  Dómari leiksins verður Helgi Mikael Jónasson, aðstoðardómarar hans verða Þórður Arnar Árnason og Sveinn Þórður Þórðarson og Bragi Bergmann er eftirlitsmaður KSÍ.

Þetta verður fyrsti deildarleikur Keflavíkur og KA frá árinu 2004 þegar bæði lið léku í efstu deild.  Keflavík vann báða leikina það árið og þess má geta að Jónas Guðni Sævarsson og Hólmar Örn Rúnarsson gerðu mörkin í 2-1 sigri á Akureyri.  Þetta verður jafnframt fyrsti leikur liðanna í B-deildinni frá upphafi.

Keflavík og KA hafa leikið 18 leiki í efstu deild.  Keflavík hefur unnið fimm leiki, sex leikjum hefur lokið með jafntefli en KA-menn hafa unnið sjö sinnum.  Markatalan er 25-27 fyrir KA.  Frægast deildarleikur þessara félara er án efa leikur á Keflavíkurvelli í síðustu umferðinni árið 1989.  KA vann leikinn og tryggði sér fyrsta og eina Íslandsmeistaratitil félagsins en Keflavík féll þar með úr efstu deild.

Liðin hafa leikið fjóra leiki í bikarkeppninni og hefur Keflavík unnið þrjá þeirra en KA einn.  Markatalan er 9-2 fyrir Keflavík í bikarleikjum liðanna.  Keflavík og KA léku til úrslita í bikarnum árið 2004 og þar unnum við 3-0 sigur og bikarinn.  Þórarinn Kristjánsson skoraði tvö mörk í þeim leik og Hörður Sveinsson eitt.


Þorvaldur þjálfari mætir á fornar slóðir á Akureyri.
Mynd: Jón Örvar.