Fréttir

Elís Kristjánsson látinn
Knattspyrna | 5. september 2016

Elís Kristjánsson látinn

Að morgni laugardagsins 3. september bárust þær sorglegu fréttir að einn af okkar dáðustu þjálfurum væri látinn. Elís Kristjánsson, eða Elli eins og hann var kallaður í daglegu tali háði hetjulega baráttu við krabbamein og þeirri baráttu lauk aðfaranótt laugardagsins.

Elli starfaði við þjálfun hjá Knattspyrnudeild Keflavíkur og þá aðallega í yngri flokkum. Hann hóf þjálfun seint á sínu æviskeiði en gerði það af miklum áhuga og eldmóð. Það var greinilegt að þjálfunin gaf honum mikið og á sama tíma gaf hann mikið af sér til allra iðkenda. 

Síðustu mánuði varð hann að taka sér frí frá þjálfun vegna veikindanna en engu að síður var hann tíður gestur á æfingar barnanna og þau tóku honum ávallt svo vel. Hann mætti á alla leiki sem hann gat og var með sterkar skoðanir á öllum hliðum fótboltans hér í Keflavík hvort sem það var í yngri flokkum, kvenna- eða karlafótboltanum.

Elli var gæðablóð, einstakur maður sem stundaði sína vinnu fyrir fótboltann af alúð og dugnaði. Hann setti svo sannarlega svip sinn á okkar starf og hans verður sárt saknað af okkur öllum.

Knattspyrnudeild Keflavíkur sendir fjölskyldu, vinum og aðstandendum Ella innilegar samúðarkveðjur.

Minning um góðan mann lifir.