Fréttir

Elías Már til Vålerenga
Knattspyrna | 30. janúar 2015

Elías Már til Vålerenga

Elías Már Ómarsson er genginn til liðs við norska liðið Vålerenga.  Keflavík og norska félagið hafa náð samkomulag um félagaskipti Elíasar en hann mun gera þriggja ára samning við Vålerenga.  Þess má geta að Vålerenga leikur í efstu deild í Noregi og varð í 6. sæti deildarinnar á síðasta ári.  Þjálfari liðsins er Kjetil Rekdal sem lék lengi með norska landsliðinu og var m.a. liðsfélagi Eyjólfs Sverrissonar hjá Herthu Berlin.

Elías Már er fæddur árið 1995 og varð tvítugur á dögunum.  Hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild gegn Fram í september 2012.  Hann hefur verið fastamaður í liði Keflavíkur undanfarin tvö keppnistímabil og hefur leikið 37 leiki í efstu deild og skorað í þeim átta mörk.  Auk þess hefur hann leikið fjóra bikarleiki með Keflavík og lék úrslitaleikinn í Borgunarbikarnum í sumar.  Hann var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar á síðasta keppnistímabili

Elías Már hefur leikið með U-17, U-19 ára og U-21 árs landsliðum Íslands.  Hann lék svo sína fyrstu A-landsleiki gegn Kanada á dögunum.

Það hefur verið markmið Elíasar að reyna fyrir sér erlendis og því er það ánægjulegur áfangi að atvinnumannaferill hans sé nú að hefjast og ástæða til að gleðjast fyrir hans hönd.  Knattspyrnudeild óskar Elíasi Má góðs gengis á nýjum slóðum.