Fréttir

Elías Már efnilegastur í Pepsi-deildinni
Knattspyrna | 21. október 2014

Elías Már efnilegastur í Pepsi-deildinni

Elías Már Ómarsson var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar en afhending verðlauna fyrir keppnistímabilið 2014 fór fram í höfuðstöðvum KSÍ í gær.  Það eru leikmenn deildarinnar sem velja efnilegasta leikmanninn.  Elías Már er vel að þessari viðurkenningu kominn en hann vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína í Keflavíkurliðinu í sumar.  Þess má geta að þetta er annað árið í röð sem Keflvíkingur hlýtur þessa viðurkenningu en Arnór Ingvi Traustason var valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar í fyrra en hann leikur nú sem atvinnumaður í Svíþjóð.  Áður hafði Hörður Sveinsson hlotið þessi verðlaun árið 2005.  Guðmundur Steinarsson var valinn besti leikmaður deildarinnar árið 2008 og er eini leikmaður Keflavíkur sem hefur hlotið þann titil.

Elías Már er fæddur árið 1995 og er því aðeins nítján ára gamall.  Hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild gegn Fram í september 2012.  Hann hefur verið fastamaður í liði Keflavíkur undanfarin tvö keppnistímabil og hefur leikið 37 leiki í efstu deild og skorað í þeim átta mörk.  Auk þess hefur hann leikið fjóra bikarleiki með Keflavík og lék úrslitaleikinn í Borgunarbikarnum í sumar.

Elías Már hefur leikið með U-17 og U-19 ára landsliðum Íslands.  Eftir frammistöðu sína í sumar vann hann sér sæti í U-21 árs landsliði Íslands sem var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í úrslitakeppni Evrópmótsins.  Elías Már lék sinn fyrsta leik með U-21 árs liðinu gegn Frökkum í síðasta leik riðlakeppni Evrópmótsins.

Við óskum Elíasi Má hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.