Fréttir

Átak í málefnum knattspyrnudómara í Reykjanesbæ
Knattspyrna | 15. desember 2014

Átak í málefnum knattspyrnudómara í Reykjanesbæ

Á dögunum var settur saman starfshópur knattspyrnudómara í Reykjanesbæ með það fyrir augum að efla aðbúnað dómara og auka gæði dómgæslunnar. Hópurinn mun vinna að þessum markmiðum í nánu samstarfi við knattspyrnudeildir Njarðvíkur og Keflavíkur. Miðvikudaginn 10. desember var þetta samstarf innsiglað með formlegum hætti þegar skrifað var undir samstarfssamning milli þessara aðila.

Einn mikilvægasti þátturinn í þessari vinnu er undirritun sérstaks dómarasáttmála þar sem þjálfarar, iðkendur, forráðamenn, foreldrar og dómarar sameinast um að bæta umgjörð og ímynd knattspyrnunnar með gagnkvæmri virðingu fyrir öllum þátttakendum leiksins. Auk þess munu knattspyrnudeildirnar meðal annars útvega nauðsynlegan búnað fyrir dómgæslu og verðlauna duglega dómara fyrir sín störf. Meðal verkefna starfshóps dómara er að styrkja starfandi og nýja dómara í sínum störfum innan vallar og utan og bjóða iðkendum og foreldrum upp á fræðslu um knattspyrnulögin og starf dómarans.

Aðilar verkefnisins binda miklar vonir við að það muni efla dómgæslu í Reykjanesbæ til muna og hvetja alla þá sem áhuga hafa á að starfa sem knattspyrnudómarar að hafa samband við fulltrúa starfshópsins, þá Magnús Þórisson, Gísla Hlyn Jóhannsson eða Jóhann Gunnarsson.

Á myndinni eru Arngrímur Guðmundsson formaður Knattspyrnudeildar UMFN, Magnús Þórisson og Þorsteinn Magnússon formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur.