Fréttir

Arnór Ingvi efnilegastur í Pepsi-deildinni
Knattspyrna | 3. október 2013

Arnór Ingvi efnilegastur í Pepsi-deildinni

Arnór Ingvi Traustason var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar en afhending verðlauna fyrir keppnistímabilið 2013 fór fram í höfuðstöðvum KSÍ í dag.  Arnór Ingvi er vel að þessari viðurkenningu kominn en hann var lykilmaður í Keflavíkurliðinu sem stóð sig framar vonum í deildinni í sumar.  Þess má geta að hann er annar Keflvíkingurinn sem hlýtur þessa viðurkenningu en Hörður Sveinsson hlaut hana árið 2005.  Guðmundur Steinarsson var valinn besti leikmaður deildarinnar árið 2008 og er eini leikmaður Keflavíkur sem hefur hlotið þann titil.

Arnór Ingvi er fæddur árið 1993 og er tvítugur.  Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið í lykilhlutverki hjá Keflavík undanfarin ár og á að baki 52 leiki í efstu deild og hefur skorað í þeim 10 mörk auk þess að leika fjóra bikarleiki.  Arnór Ingvi lék sinn fyrsta leik gegn Fram í september 2010, þá 17 ára gamall.  Hann skoraði fyrsta mark sitt í efstu deild gegn ÍBV í síðustu umferð deildarinnar það sumar og var það stórglæsilegt eins og fleiri mörk hans.  Arnór vakti strax mikla athygli fyrir frammistöðu sína og hann varð fljótlega lykilmaður í Keflavíkurliðinu.  Hann var valinn efnilegasti leikmaður liðsins árin 2011 og 2012.  Á síðasta ári fór hann sem lánsmaður til norska úrvalsdeildarliðsins Sandnes Ulf og lék 10 deildarleiki með liðinu.

Arnór Ingvi lék með U-17 og U-19 ára landsliðum Íslands og er nú fastamaður í U-21 árs liðinu sem hefur farið frábærlega af stað í undankeppni Evrópmótsins á þessu ári.  Hann á að baki sex leiki með liðinu og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í sigri liðsins á Kasakstan á dögunum.

Við óskum Arnóri Ingva hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.