Fréttir

Keflvíkingar ganga að samningsborðinu
Körfubolti | 13. apríl 2016

Keflvíkingar ganga að samningsborðinu

Keflavík gekk nú á dögunum frá samningum við 6 unga og mjög efnilega leikmenn kvennaliðsins. Það voru þær (f.v.) Írena Sól Jónsdóttir, Katla Rún Garðarsdóttir, Emelía Ósk Gunnarsdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir, Þóranna Kika Hodge Carr og Andrea Dögg Einarsdóttir. Stelpurnar eru ýmist á 17. eða 18. aldursári og léku allar með meistaraflokki á liðnu tímabili. 
Einnig var gengið frá samningum við þjálfara kvennaliðsins, þá Sverri Þór Sverrisson (t.h.) og honum til aðstoðar Gunnar Stefánsson (t.v.). Samið var til tveggja ára. 

Um er að ræða stelpur sem hafa alist upp hjá Keflavík og sigrað allt sem hægt er að sigra í sínum yngri flokkum. Mikil ábyrgð og mikið traust hefur verið lagt á þessar ungu stelpur en í vetur tefldi Keflavík fram yngsta liðinu í Dominosdeild kvenna og stóðu stelpurnar sig með príði, þar sem þær enduðu hársbreidd frá úrslitakeppninni. Framtíðin er björt hjá kvennastarfi Keflavíkur og ekki mun líða að löngu þar til við munum sjá þessar ungu stelpur lyfta sínum fyrsta titli fyrir meistaraflokk félagsins.

 

Einnig var gengið frá samningum karlamegin við þá (f.v.) Davíð Pál Hermannsson, Daða Lár Jónsson og Arnór Inga Ingvason.

Allir léku þeir með Keflavík í vetur, þrátt fyrir að eiga sér mismunandi bakgrunna. Davíð Páll hefur nú leikið með liðinu í tvö tímabil og er gaman að sjá hann halda áfram með Keflavík. Daði Lár er ungur leikmaður sem gekk til liðsins frá Stjörnunni nú í vetur og er hann mikið efni og góður fengur fyrir liðið. Arnór Ingi er leikmaður á 18. aldursári sem hefur alist upp hjá félaginu og var í hópi í flestum leikjum liðsins í vetur. Það er ánægjuefni að búið sé að tryggja liðinu áframhaldandi krafta þessara drengja en samið var til tveggja ára.