Fréttir

Project ofninn í gang fyrir Egilsstaðarkappa
Karfa: Hitt og Þetta | 13. ágúst 2014

Project ofninn í gang fyrir Egilsstaðarkappa

Fyrir tæpum tveimur árum sögðum við frá miklu þrekvirki undirritaðs við að koma internetinu í samband í íbúð sem bandarískir leikmann KKDK höfðu til umráða. Lesa má nánar um það hér; http://www.keflavik.is/karfan/deildin/frettir/project-internet-for-the-kanes/8519/. Í sömu íbúð eru nú fluttir miklir meistarar frá Egilsstöðum en í sumar bjó þar atvinnumaðurinn okkar Hörður Axel Vilhjálmsson. Sá galli hefur verið á gjöf Njarðar að íbúðin hefur verið með óvirkan bakarofn í um tvö ár. Hefur það ekki komið að sök þar sem erlendir leikmenn félagsins hafa lítið þurft að nota ofninn og einatt djúpsteikt allt sem þeir komast í – hvort sem það er kjúklingur eða morgunkorn. Í gær var hins vegar ákveðið að fara í „mission impossible“ og reyna loks að setja bakarofninn í gang eða að minnsta kosti koma þessu ónýta drasli út. Nú voru góð ráð dýr því margir höfðu verið kallaðir til en engum hafði tekist ætlunarverkið, að koma honum í gang. Einn stjórnarmaður í Keflavík hafði t.d. kíkt við og séð að ekki var við rafmagnstöfluna að sakast en steininn sló úr þegar fyrrum rafvirkjaneminn og „allt múlígt maðurinn“, Jón Þór Gylfason, dæmdi ofninn ónýtan – án þess þó að hafa svo mikið sem séð hann.

Nú hvað var til bragðs að taka annað en að hringja í leigusalann og heimta nýjan ofn eða a.m.k  að þessi yrði lagaður með þeim orðum að það tæki því varla því „það væri morgunljóst að þessi tegund af ofnum væri algjört drasl – það væri vitað“. Nú leigusalinn brást hratt við en ákvað þó með jákvæðnina að vopni að láta reyna á það hvort ekki væri nú hægt að gera við ofninn. Sér rafvirki frá Johann Rönning var kallaður til, en sá ku hafa numið mastersnám í ofnafræðum frá háskólanum í Lund í Svíþjóð. Undirbúinn undir allt mætti hann á Faxabraut 38c í gær og tókst hið ómögulega, að koma ofninum aftur í gang. Það má þakka fyrir að leigusalinn tók ekki ótímabærum dauðdaga ofnsins trúanlegum. Undirritaður fékk svo staðfestingu um að „Project ofninn í gang fyrir Egilstaðakappa“ hefði tekist í símtali frá leigusalanum í gær. Það var einhvernvegin á þessa leið;

Sævar: Bleeesssaður!
Leigusali: Blessaður, hvert viltu að ég sendi reikninginn fyrir rafvirkjanum sem kom ofninum í lag?
Sævar: Tja, ég veit ekki – var þetta mikið vesen, hefði ekki verið betra að kaupa nýjan ofn?
Leigusali: SÆVAR!!! Hann þurfti að stilla klukkuna!!! Ég kallaði sérstaklega út rafvirkja frá Johan Rönning til þess að stilla klukku!!!

Sævar Sævarsson