Fréttir

Keflvíkingar Íslandsmeistarar í minibolta drengja
Karfa: Yngri flokkar | 16. apríl 2014

Keflvíkingar Íslandsmeistarar í minibolta drengja

Keflavík varð um liðna helgi Íslandsmeistari í minibolta drengja en lokamótið fór fram í TM-Höllinni. Keflavík sem fór taplaust í gegnum allt tímabilið lék viriklega vel alla helgina og ljóst að þar fer vel þjálfaður og samrýmdur hópur drengja sem spilar flottan liðsbolta. Sem dæmi um það léku allir leikmenn liðsins um helgina en slíku  var ekki fyrir að fara hjá öllum liðunum. Var það mál manna að hver og einn einasti leikmaður Keflavíkur hafi staðið fyrir sínu og framtíð liðsins sé sannarlega björt haldi leikmenn þess áfram uppteknum hætti.

Úrslit helgarinnar voru sem hér segir;
Keflavík - Stjarnan: 50-26
Keflavík - Ármann: 63-25
Keflavík - Stjarnan b: 48-32
Keflavík - Valur: 52-32

Björn Einarsson er þjálfari liðsins en Jón Guðbrandsson, lærimeistari ´81 árgangsins, er honum til aðstoðar. Björn hefur haft drengina í sinni umsjá undanfarin tvö ár. Heimasíða Keflavíkur fékk Björn til að svara nokkrum spurningum í kjölfarið á þessum góða árangri.

Jæja, nú fór þetta lið taplaust í gegnum tímabilið - hvað skýrir þann góða árangur?
Þessir strákar eru duglegir að mæta vel á æfingar. Þeir eru vel "drillaðir" enda búnir að fá toppþjálfun síðastliðin tvö tímabil.
 
Telur þú þennan flokk geta náð langt í framtíðinni - hugsanlega einhverjir framtíðar leikmenn meistaraflokks þarna?
Já, þeir geta náð langt ef þeir halda hópinn. Nú þegar eru nokkrir þeirra mjög líklegir og vonandi halda þeir allir áfram á sömu leið og þá fáum við klárlega nokkra landsliðsmenn í framtíðinni.
 
Að lokum, nú hefur karfan þurft að berjast talsvert við fótboltann þegar kemur að leikmönnum og oft orðið undir í þeirri baráttu. Eru einhverjar sérstakar ástæður fyrir þessu og mögulega eitthvað til ráða til að jafna þá baráttu? 
Það er erfitt að svara þessu. Það er oft þannig að þeir leikmenn sem eru góðir í körfubolta eru einnig góðir í fótbolta og fleiri íþróttum. Við höfum ekki verið að leggja áherslu á að krakkar velji á milli íþrótta of snemma og teljum í raun að krakkarnir græði meira á því að iðka sem flestar íþróttir sé það möguleiki. Ég held að við þurfum bara að halda áfram að hlúa vel að þeim krökkum sem æfa körfubolta. Það gerum við með því að bjóða upp á skemmtilegar og góðar æfingar, skemmtilega umgjörð og stuðla að því að upplifun þeirra sem æfa körfubolta sé jákvæð. Ef það tekst er ekki nokkur spurning að fleiri krakkar muni sækjast í að æfa körfubolta og fleiri krakkar munu halda áfram í þessari skemmtilegustu íþrótt í heimi.