Körfubolti

Karfa: Yngri flokkar | 14.07.2017
Keflvíkingar gerðu góða ferð til Lloret de Mar

 

Keflvíkingar gerðu góða ferð til Lloret de Mar

 

Nú á dögunum gerðu yngri flokkar Keflavíkur í körfunni heldur betur góða ferð til Lloret de Mar á Spáni. Um var að ræða 9 daga keppnisferð 9. og 10. flokks stúlkna og 9. flokks drengja. Úrslitaleikirnir í mótinu fóru fram föstudaginn 7. júlí. Eins og vera ber þá var ferðin að sjálfsögðu sambland af keppni og skemmtun.

Stúlkurnar kepptu í tveimur aldursflokkum og gerðu sér lítið fyrir og tóku silfrið í eldri aldursflokknum en gullið í yngri. Seinni úrslitaleikurinn var háður gegn feykisterku liði KR. KR-ingar voru yfir nánast allan leikinn en með gríðarlegri baráttu náðu okkar stúlkur að landa 59-50 sigri í lokin. Stúlkurnar kepptu alls 10 leiki í báðum aldursflokkum.

Svipaða sögu er svo hægt að segja af drengjunum en þeir náðu að landa 61-54 sigri í úrslitaleik á móti sterku ítölsku liði frá borginni Saranno, þar sem Keflvíkingar sigu fram úr í síðasta leikhlutanum eftir að hafa verið undir allan leikinn. Drengirnir kepptu alls 6 leiki á móti ítölskum, spænskum og tyrkneskum liðum.

Þessi ferð verður lengi í minnum höfð og hafa krakkarnir án efa eignast ógleymanlegar minningar fyrir lífstíð. Tveir stórglæsilegir sigrar á mótinu, við mjög erfiðar aðstæður í miklum hita, þar sem bæði lið sýndu mikla þrautseigju eftir að hafa verið undir nánast allan tímann í úrslitaleikjunum. Geggjaður stuðningur fjölda foreldra og aðstandenda á áhorfendapöllunum skemmdi ekki fyrir.

Þess á milli átti hópurinn frábæra daga í strandalífi, bátsferð, vatnsleikjagarði, Barcelona o.s.frv. Margir lögðu hönd á plóginn til þess að þessi ferð gæti heppnast sem best. Gerður var góður rómur frá mótshöldurum með aðkomu Keflavíkinga að mótinu. Liðin sýndu mikla keppnishörku þegar á þurfti að halda á meðan passað var upp á að halda gleðinni. Krakkarnir voru svo sannarlega félagi sínu til sóma og allir komu heilir heim.

Áfram Keflavík!!