Fréttir

Allar tilbúnar í verkefnið - stutt viðtal við Söndru Lind
Karfa: Konur | 22. apríl 2015

Allar tilbúnar í verkefnið - stutt viðtal við Söndru Lind

Keflavíkurstúlkur fara í Stykkishólm í kvöld þar sem þær mæta Snæfelli í fyrsta leik liðanna í úrslitum Domino´s deildarinnar. Leikurinn hefst kl. 19.15 en Keflvíkingar bjóða upp á rútuferðir í leikinn. Lagt verður af stað kl. 15:30 og kostar um kr. 2000 - 3000 í ferðina, eftir því hve margir skrá sig. Heimasíða Keflavíkur heyrði í Söndru Lind Þrastardóttur, fyrirliða liðsins, og spurði hana nokkurra spurninga.

Jæja captain, hvernig leggst einvígið við Snæfell í ykkur?
Það leggst rosalega vel í okkur. Þetta er það sem við erum búnar að vera að æfa fyrir í allan vetur og erum orðnar mjög spenntar að byrja.

Nú eru Snæfellsstúlkur ríkjandi meistarar - hverjir eru helstu styrkleikar þeirra og hvaða leikmenn þurfið þið að hafa mestar gætur á?
Já, þær eru gott lið. Eru fljótar fram og vita allar sitt hlutverk. Við þurfum bara að stoppa allt liðið. Leggja okkur allar fram í vörninni og gera þetta saman þá stöndum við okkur vel.

Hvernig er Keflavíkurliðið undirbúið og hvernig er stemmningin í hópnum?
Við erum vel undirbúnar og vitum hvað við eigum að gera. Mér finnst stemmningin alveg gríðarlega góð. Allar tilbúnar í verkefnið.

Fyrsti leikurinn er á útivelli - er ekki mikilvægt að stela heimavallaréttinum strax?
Við verðum að spila vel og sýna úr hverju við erum gerðar. Það er bara núna eða aldrei því þetta eru jú úrslitin.

Hvernig fáum við Keflvíkinga til að fjölmenna - einhver hvatningarorð til okkar fólks um að fjölmenna í rútuferð?
Já, við þurfum á ykkar stuðning að halda! Sumardagurinn fyrsti á fimmtudaginn og allir í fríi afhverju ekki að skella sér í Hólminn á miðvikudegi að horfa á hörku skemmtilegan körfuboltaleik og styðja sitt lið? Áfram Keflavík!