Fréttir

7. Flokkur drengja Íslandsmeistarar
Karfa: Yngri flokkar | 13. apríl 2015

7. Flokkur drengja Íslandsmeistarar

 

Keflavík Íslandsmeistarar í 7. flokki drengja.

 

Um helgina fór fram lokamót í 7. flokki drengja í TM höllinni en keflvísku drengirnir höfðu titil að verja frá því í minniboltanum í fyrra. Keflavík komu taplausir inn í lokamótið núna og því ljóst að önnur lið mundu gera harða atlögu að þeim.

Í fyrsta leik mótsins mættu þeir nýliðum Hamars/Hrunamanna. Verkefni Hamarsmanna var erfitt en þeir sýndu eigi að síður mikið baráttuþrek. Keflavíkurhraðlestin var þó illviðráðanleg fyrir gestina og lokatölur urðu 64-6 en allir leikmenn Keflavíkur komust á blað í þeim leik. Annar leikur liðsins var á móti sterku liði KR-inga sem hafa á að skipa breiðum hópi stráka undir stjórn Bojan Desnica. KR spilaði aggresíva vörn og veittu þeir Keflvíkingum harða keppni. KR náði 2 stiga forystu í 3ja leikhluta en þá hrukku heimamenn í gang, sýndu góðan karakter og sigurvilja. Lokatölur urðu 43-27 fyrir Keflavík með skemmtilegum 3 stiga buzzer frá Davíð í lok leiks. Í þriðja leik mættu Keflvíkingar svo Ármanni en þeir eru vel skipað lið og stýrt af ekki minni kempum en Kalla Guðlaugs og Bigga Mikaelssyni. Í þetta skiptið lutu þeir þó í lægra haldi fyrir Keflvíkingum 45-23 þar sem undrabarnið Stebbi setti stig í lok leiks.

 

Úrslitaleikurinn milli Vals og Keflavíkur síðdegis á sunnudeginum hófst með látum og barist var um hvern bolta frá fyrstu mínútu. Ljóst var að Valsmenn ætluðu að leggja allt í sölurnar enda höfðu þeir þar á undan unnið alla þrjá leikina sína á mótinu. Þar er á ferðinni öflugur árgangur hjá Valsmönnum og má þar finna syni nokkurra gamalla körfuboltakempna eins og Svala Björgvins og Gunnlaugs Elsusonar. Keflavík náði þó strax forystu sem þeir létu aldrei eftir. Hægt og rólega herti Keflavíkurliðið tökin með gríðarsterkum varnarleik og skipulögðum sóknarleik. Valsmenn keyrðu á nánast sama liði allan tímann og hægt og rólega fóru lykilmenn þeirra að þreytast. Keflavík skiptu óþreyttum leikmönnum ört inná og uppskáru að lokum sannfærandi sigur liðsheildarinnar 48-25.

 

Keflavíkurliðið sýndi að þeir eru verðugir sigurvegarar enda fóru þeir taplausir í gegnum veturinn, eins og síðastliðinn vetur. Bjössa Einars þjálfara liðsins hefur tekist vel til að ná því besta út úr hópnum og stilla saman sterkri liðsheild ólíkra körfuboltadrengja. Frábæru móti lokið í Keflavík og framtíð svo sannarlega björt. Til hamingju Keflavík.